Annað kvöldið í röð býður himinninn yfir Húsavík upp á einstaka norðurljósasýningu. Í kvöld má sjá alla helstu liti norðurljósanna, rauðan, bleikan, fjólubláan og grænan, dansa yfir bænum og Skjálfanda í stórkostlegri ljósadýrð. Meðfylgjandi myndir tók Hafdís Erna Bjarnadóttir, 11 ára, á Húsavík í kvöld.
Í gærkvöldi sáust norðurljósin vel á Húsavík og lofar kvöldið í kvöld ennþá meiru að sögn Sævars Helgi Bragasonar, ritstjóra Stjörnufræðivefsins. „Það er gott útlit fyrir fleiri hviður hjá ykkur fyrir norðan,“ sagði Sævar í samtali við Húsavík.com í gær.
Sævar Helgi Bragason skrifaði fyrr í kvöld á Facebook síðu sína: Í gærmorgun varð sólblossi að styrk X1,9 sem olli kröftugu kórónugosi og stefnir hratt á Jörðina. Líkön benda til þess að skýið skelli á Jörðinni í kringum kl. 11:30 í fyrramálið en óvissan er mikil (nokkrar klukkustundir til og frá) og gæti skýið jafnvel hæft okkur í nótt.
Gosið er mjög hraðfleygt og orkuríkt. Nú þegar hefur róteindastormur mælst sögulega hár (S4), sá hæsti síðan í stormunum miklu í október-nóvember 2003. Það eitt og sér segir lítið sem ekkert um möguleg norðurljós en gefur hugmynd um hversu kröftugt gosið er.
Aðaláhrif geislunarstorma af þessu tagi eru á flugferðir, gervitungl og fjarskipti. Þannig verða flugfarþegar fyrir meiri geislun en alla jafna, gervitungl geta slegið út og GPS leiðsagnarkerfi orðið fyrir verulegum truflunum. Engin áhrif eru á okkur sem erum á Jörðu niðri. Líklega verður hraði sólvindsins um 900 km/s þegar það skellur á Jörðinni.
Vonandi verður Bz-gildið neikvætt og þéttleikinn hár. Það þýðir frábært norðurljósakvöld með nokkrum glæsilegum og litríkum hviðum og rauðum lit sem sést með berum augum. Verði Bz-gildið að mestu í norður verður sýningin miklu veikari. Hunsaðu þess vegna allar Kp-gildisspár (frá 0-9) því þær spá alls, alls ekki fyrir um norðurljós eða hvenær þau verða sterkust og virkust. Á sama tíma verður Jörðin fyrir áhrifum frá hraðfleygum sólvindi úr kórónugeil. Sömu aðstæður og voru laugardaginn 10. janúar.
UPPFÆRT KL. 19:40! GOSIÐ ER SKOLLIÐ Á JÖRÐINNI LANGT Á UNDAN ÁÆTLUN! Á AÐEINS 25 TÍMUM. SVO HRATT GOS HEFUR EKKI MÆLST SÍÐAN 2003!

