Kristján Örn og Harðarbörn kaupa Gamla Bauk af Norðursiglingu

Nýr kafli er hafinn í sögu veitingastaðarins Gamla Bauks á Húsavík, en þau Kristján Örn Sævarsson, Þórunn Harðardóttir, Heimir Harðarson og Hildur Harðardóttir hafa ásamt mökum keypt allan húsakost Bauksins af Norðursiglingu.

Húsavík.com ræddi við Kristján Örn þar sem hann var á fleygiferð við undirbúning Þorrablótsins, sem fer fram á morgun.

Kristján Örn og kona hans, Kristveig Halla, standa að félaginu Norðanmatur, sem mun áfram reka veitingastaðinn í Gamla Bauk líkt og gert hefur verið undanfarin ár, nú sem hlutaeigendur húsnæðisins í stað leigutaka, í félagi við börn Harðar Sigurbjarnarsonar sem var einn af upprunalegum hugmyndasmiðum staðarins.

Tryggja rekstraröryggi og framtíð Bauksins

Aðspurður um aðdragandann að kaupunum segir Kristján að ákvörðunin hafi fyrst og fremst snúið að því að tryggja áframhaldandi rekstraröryggi. „Norðursigling setti Gamla Bauk á sölu í fyrra og til að tryggja rekstraröryggi Norðanmats, sem hefur rekið Baukinn undanfarin ár, fór ég að leita leiða til að festa reksturinn í sessi til framtíðar,“ segir Kristján.

Í þeirri vegferð leitaði hann samstarfsfólks sem hefði sterkar taugar til staðarins  og þá lá beinast við að horfa til Harðarbarnanna. „Þegar ég fór að leita mér að fólki til að gera þetta með, þá kom fljótt í ljós að þau systkini Þórunn, Hildur og Heimir, ásamt mökum sínum, höfðu áhuga. Þau eru mínir draumaviðskiptafélagar í þessu. Þau hafa sterkar taugar til hússins og staðarins og þekkja hvern krók og kima á Gamla Bauk.“

Vinátta og tengsl sem ná áratugi aftur í tímann

Kristján segir að persónuleg tengsl hafi einnig vegið þungt í ákvörðuninni. „Ég hef þekkt þau frá því ég var barn. Þegar ég flutti í Mývatnssveit fimm eða sex ára gamall varð Heimir einn af mínum bestu vinum, og feður okkar voru samstarfsfélagar í Kröfluvirkjun. Það er mikil spenna í hópnum að gera Baukinn sem allra glæsilegastan.“

Gamli Baukur á sér langa og merka sögu í bæjarlífi Húsavíkur. Segja má að húsið sem nú stendur á miðju hafnarsvæðinu sé framhaldslíf sýslumannshúss sem reist var árið 1843 og varð síðar vertshús, greiðasala og samkomustaður Þingeyinga. Nafnið Baukur er dregið af vínglösum eða staupum sem kölluð voru baukar, og var Baukurinn um tíma ein helsta skemmtimiðstöð héraðsins.

Endurreisn Gamla Bauks undir lok 20. aldar tengdist uppbyggingu Norðursiglingar og áhuga á eikarbátum og sjóminjum.

Þorrablótið framundan

Að lokum barst talið að Þorrablótinu, einum stærsta viðburði ársins í rekstri Bauksins. „Undirbúningur fyrir blótið gengur vel. Þetta er einn stærsti dagurinn okkar á hverju ári. Eini dagurinn sem er stærri er laugardagurinn á Mærudögum,“ segir Kristján og brosir.

„Það er mikið umleikis í kringum þetta þegar maður er að fara með allt úr húsi. Þetta er fjórða þorrablótið sem ég sé um, svo við erum orðin vön í þessu,“ segir Kristján kampakátur.