GH: „Þakklát fyrir það traust sem Norðurþing sýnir Golfklúbbi Húsavíkur“

Sveitarfélagið Norðurþing hefur endurnýjað samstarfssamning við Golfklúbb Húsavíkur til næstu þriggja ára. Samningurinn gildir til ársins 2028 og er liður í áframhaldandi stuðningi sveitarfélagsins við íþrótta- og tómstundastarf í Norðurþingi, að því er fram kemur á vef sveitarfélagsins.

Það voru Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, og Benedikt Þór Jóhannsson, rekstrarstjóri Golfklúbbs Húsavíkur sem undirrituðu hinn nýja samning.

„Við erum afar þakklát fyrir þann stuðning og traust sem Norðurþing sýnir Golfklúbbi Húsavíkur með endurnýjun þessa samstarfssamnings. Samningurinn er afar mikilvægur fyrir starfsemi félagsins og tryggir nauðsynlegan stöðugleika til áframhaldandi uppbyggingar, bæði hvað varðar aðstöðu og öflugt barna- og ungmennastarf,“ segir Benedikt Þór Jóhannsson rekstrarstjóri Golfklúbbs Húsavíkur.

Katrín Sigurjónsdóttir sagði við undirritun samningsins að Norðurþing liti á samstarfið sem mikilvægan hluta af heildarstefnu sveitarfélagsins um öflugt íþrótta- og frístundastarf og fagnaði því að geta haldið áfram farsælu samstarfi við Golfklúbb Húsavíkur næstu ár.

Golfklúbbur Húsavíkur hefur um árabil verið öflugur þátttakandi í íþróttalífi sveitarfélagsins og boðið upp á fjölbreytt starf fyrir iðkendur á öllum aldri. Með endurnýjun samningsins er lögð áhersla á áframhaldandi uppbyggingu barna- og ungmennastarfs, auk þess að styðja við rekstur golfvallar og félagsaðstöðu ásamt almennri kynningu á íþróttinni.

Að sögn Benedikts gefur samningurinn jafnframt svigrúm til að styrkja golfíþróttina sem vettvang fyrir hreyfingu, útivist og félagslega þátttöku fólks á öllum aldri. Golfvöllurinn gegnir þar mikilvægu hlutverki, bæði fyrir lýðheilsu, samfélagslíf og móttöku gesta í sveitarfélaginu, og segir hann félagið hlakka til áframhaldandi farsæls samstarfs á komandi árum.