GIGA‑42 sækir um 5 hektara lóð fyrir gervigreindarver á Bakka

Á síðasta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþing var tekið fyrir erindi frá GIGA‑42 þar sem félagið óskar eftir úthlutun 5 hektara lóðar á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Umsóknin er liður í fyrsta áfanga fyrirhugaðrar uppbyggingar gagnavers fyrir gervigreind, í samræmi við gildandi viljayfirlýsingu milli Norðurþings og GIGA-42.

Í erindinu kemur fram ósk um að lóðin verði valin þannig að nægjanlegt samliggjandi land sé til staðar fyrir mögulega framtíðarstækkun. Í því samhengi er horft til allt að 20 hektara lands við úthlutun. Jafnframt hefur fyrirtækið átt í samskiptum við Landsvirkjun um orkuöflun í samræmi við ákvæði viljayfirlýsingarinnar.

Skipulags- og framkvæmdaráð fagnaði umsókn GIGA-42 og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að gera tillögur að staðsetningu lóðarinnar. Jafnframt var samþykkt að hefja undirbúning deiliskipulagsvinnu þar sem sérstaklega verði horft til mögulegrar stækkunar til lengri tíma.

Viljayfirlýsing undirrituð í ágúst

Í lok ágúst var undirrituð viljayfirlýsing milli Norðurþings og GIGA-42 um uppbyggingu gagnavers á Bakka. Þar er gert ráð fyrir fyrsta fasa á 4,3 hektara lóð með allt að 50 MW raforkuþörf, með möguleikum á stækkun fáist meiri orka. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2026 og að allt að 100 einstaklingar komi að byggingu, hönnun og skipulagi á framkvæmdatíma.

Að lokinni uppbyggingu fyrsta fasa er gert ráð fyrir 50–80 varanlegum störfum á tæknisviði, meðal annars í rafmagns- og vélaverkfræði, kælitækni, rekstri og kerfisfræði, auk almennra starfa. Reksturinn verður allan sólarhringinn, allt árið.

Í viljayfirlýsingunni er jafnframt bent á að Ísland geti orðið miðpunktur gervigreindarlausna, meðal annars vegna endurnýjanlegrar orku, kalds loftslags og möguleika á endurnýtingu glatvarma, til dæmis í fiskeldi, gróðurhúsum eða annarri matvælaframleiðslu.

> See also: Municipality signs memorandum to bring AI data center to Húsavík