Inga Björg og Hjörvar Þór tryggðu sér sæti á Evrópumóti U-18 í blaki

Inga Björg Brynjúlfsdóttir og Hjörvar Þór Hnikarsson, sem bæði leika með meistaraflokkum Völsungs í blaki, hafa tryggt sér þátttökurétt á Evrópumóti U-18 í blaki sem fer fram í sumar. Þau voru meðal lykilmanna í íslensku U-18 landsliðunum sem unnu glæsilegan sigur á Evrópumóti smáþjóða (SCA) sem fram fór í Dublin á Írlandi.

Á mótinu mættu íslensku liðin Írlandi, Skotlandi, Norður-Írlandi, Liechtenstein og Færeyjum. Bæði kvenna- og karlalið Íslands stóðu uppi sem sigurvegarar og tryggðu sér þar með farseðil á lokakeppni Evrópumótsins í júlí. „Þetta er sögulegur árangur því aldrei áður hafa íslensk blaklið komist í lokakeppni EM,“ segir Andri Hnikarr Jónsson, faðir Hjörvars.

Inga Björg hlaut sérstaka viðurkenningu á mótinu og var valin ein af athyglisverðustu leikmönnum kvennaliðsins. „Inga er ein sú efnilegasta á landinu í dag og gegnir stóru hlutverki í liðinu,“ bætir Hnikarr við.

Húsavík.com ræddi við Ingu sem sagði tilfinninguna geggjaða og næstu mánuði spennandi. „Eins og er þá erum við að spila með heimaliðunum okkar í deildinni ení apríl förum við svo í æfingarbúðir og þá taka við strangari æfingar fyrir mótið,“ segir Inga.

Mótin í sumar fara fram 1.–12. júlí hjá stúlkunum, annaðhvort í Lettlandi eða Litháen, en strákarnir halda í kjölfarið til Ítalíu. Helga Björg Pálmadóttir, móðir Ingu og fararstjóri liðanna í Dublin, segir skipulagið þegar í mótun og stemninguna mikla í hópnum.

Þrátt fyrir annríki er lítil hvíld í boði: Hjörvar kom heim frá Írlandi síðla kvölds í gær og lék í dag með Völsungi í Hveragerði. „Þau eru bæði enn í grunnskóla en hafa þegar öðlast mikla reynslu og fá nú einstök tækifæri á alþjóðavettvangi,“ segir Hnikarr.

Það ríkir mikið stolt í samfélaginu þessa dagana og eftirvænting að fylgjast með þeim Ingu og Hjörvari á EM í sumar. „Það er löng blakhefð á Húsavík og gaman að sjá að uppbyggingarstarfið sé að skila svona frábærum árangri. Árangur þeirra er mikil viðurkenning fyrir Blakdeild Völsungs,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri

Rætt verður ítarlega við Ingu Björg í Sunnudagsviðtali Húsavík.com á morgun.