Á nýrri vefsíðu Markþings, samtaka aðila í verslun og ferðaþjónustu er að finna viðburðadagatal þar sem einstaklingar, félög og fyrirtæki geta skráð viðburði sína. Þar eru nú auglýstir fjölmargir viðburðir sem eru á döfinni á Húasvík næstu vikur, þorrablót, menningarspjall, fundur hjá Leikfélagi Húsavíkur o.fl. „Þetta fer fínt af stað, og fólk er byrjað að kveikja á að það sé hægt að skrá viðburði beint inn á síðuna. Við stefnum á að fara í herferð á næstu mánuðum til að kynna dagatalið. Svona tæki er sérstaklega mikilvægt nú þegar Skráin er hætt að koma út“, segir Heiðar Hrafn Halldórsson, gjaldkeri og ritstjór síðunnar Visit Húsavík.
Dagatalið má finna hér: www.visithusavik.is/is/vidburdir
Skráin hafði komið út á Húsavík frá árinu 1975 en síðasta tölublað hennar kom út þann 16. október síðastliðinn. Þar voru margir viðburðir á Húsavík auglýstir gegnum tíðina.
Stjórn Markþings fundaði í morgun þar sem rætt var um dagatalið og fleira sem er á döfinni hjá félaginu.. „Við erum að undirbúa aðalfund sem verður haldinn þann 4. mars og svo vorum við að fara yfir árið framundan, skipuleggja verkefni og undirbúa sumarið,” segir Heiðar að lokum.


