Hvalasafnið á Húsavík hefur auglýst eftir nýjum safnstjóra, en núverandi safnstjóri, Eva Björk Káradóttir, hyggst snúa sér að öðrum verkefnum eftir sjö farsæl ár í forystu safnsins.
Eva Björk tók við starfi safnstjóra haustið 2018 og var þá ráðinu úr hópi 7 umsækjenda um stöðuna. Undir hennar stjórn hefur Hvalasafnið gengið í gegnum umfangsmiklar endurbætur, bæði á húsnæði og sýningum, auk þess sem fræðslustarf, rannsóknir og alþjóðleg tengsl hafa eflst verulega.
„Ég kveð Hvalasafnið með djúpu þakklæti. Þessi ár hafa verið lærdómsrík og spennandi, og starfið verið vettvangur fjölbreyttra áskorana sem hafa kallað á skapandi nálgun og ýtt undir umbætur. Ég er afar þakklát fyrir alla þá sem hafa starfað með mér á þessum árum og stutt mig í að ná þeim árangri sem við höfum sameiginlega áorkað. Ég kveð með hlýhug og spennu fyrir því að sjá hver stígur næst inn í starfið,“ segir Eva Björk í samtali við Húsavík.com.
Í safnstjóratíð Evu var meðal annars ráðist í gagngera endurnýjun sýningum og mótun heildstæðrar hönnunar fyrir safnið. Unnið hefur verið að því að laga gólf, endurnýja lýsingu og tæknibúnað, ásamt því að byggja upp jarðhæð hússins sem nú hýsir bæði FabLab og safnageymslur. “Við höfum einnig sameinað vinnustaðinn með Stéttinni, sem hefur reynst frábær viðbót fyrir starfsemina. Þá bættum við öryggi safngesta með því að uppfæra öryggis- og eftirlitskerfi safnsins, auk þess sem sett var upp nýtt loftræstikerfi í húsinu,” segir Eva. Nýr safnstjóri tekur því við góðu búi.
Í auglýsingu frá safninu kemur fram að hlutverk nýs safnstjóra verði að bera ábyrgð á faglegu starfi safnsins, þar á meðal söfnun, skráningu, varðveislu og miðlun. Í auglýsingu kemur einnig fram að starfið feli í sér daglegan rekstur safnsins, starfsmannamál, markaðs- og kynningarmál, og umsýslu með safneign og húsnæði.
Mynd af vef Whale Wise

