50 ár frá Kópaskersskjálftanum: „Fannst þetta aldrei ætla að enda“

Þann 13. janúar 1976 klukkan 13:30 reið einn harðasti jarðskjálfti sem orðið hefur í byggð á Norðurlandi yfir Kópasker. Skjálftinn mældist 6,5 á richterkvarða og átti upptök sín um 12 kílómetra suðvestur af þorpinu. Á örfáum sekúndum breyttist daglegt líf íbúanna. Þótt manntjón yrði ekki í skjálftanum, urðu afleiðingarnar miklar fyrir samfélagið. Í dag eru 50 ár frá skjálftanum.

Hólmfríður Halldórsdóttir stýrði um árabil Skjálftasetrinu á Kópasker, þar sem jarðskjálftanum árið 1976 og áhrifum hans á samfélagið var lýst í máli og myndum. Hólmfríður upplifði sjálf skjálftann, en hún var hafði farið í kaupfélagið með son sinn og vin hans og var kominn upp a skrifstofu kaupfélagsins þegar skjálftinn reið yfir og lýsir því hvernig allt fór á hreyfingu á einu augabragði.

Eftir skjálftann greip mikill ótti um sig, ekki síst vegna óvissu um ástand bygginga og innviða. „Það fór allt vatn af þorpinu, rafmagn komst nú reyndar nokkuð fljótt aftur á, en svo var lengi þessi ótti að það kæmu aðrir stórir skjálftar, en sem betur fer komu þeir ekki,“ segir hún.

Fólk var flutt burt í erfiðum veðuraðstæðum. „Það var fínasta veður þegar skjálftinn reið yfir en brast á með ofsaveðri þegar var byrjað að flytja fólki, norðaustan stórhríð,“ segir Hólmfríður, en hún og sonur hennar komust að lokum til Húsavíkur landleiðina. Tveimur vikum síðar, þegar vatnslagnir höfðu verið lagfærðar, sneru þau aftur heim á Kópasker.

Árið 2006 kom fram hugmynd um að stofna jarðskjálftasetur á Kópaskeri, með það að markmiði að nýta einstakar jarðfræðilegar aðstæður svæðisins og merkilega sögu skjálftans til að skapa aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Skjálftasetrið opnaði sumarið 2009 og varð um árabil mikilvægur hluti af menningarlífi á Kópaskeri og Hólmfríður stýrði því af miklum sóma.

„Ég hætti í Skjálftasetrinu árið 2018 þegar ég varð 67 ára. Það var opið eitthvað eftir það en hætti fljótlega, en búið er að koma einhverjum munum og spjöldum í byggðasafnið,“ segir Hólmfríður sem vonast til þess að sýningin fái að lifa í einhverju formi og segja frá þessum mikilvæga þætti í sögu þorpsins.

Í tengslum við 50 ára ártíð skjálftans stóð til að halda messu liðna helgi, en henni var frestað. „Það átti að vera messa á sunnudag en hún féll niður vegna veikinda og það stendur til að vera með athöfn síðar á árinu,“ segir hún.

Skjálftinn fannst mjög vel á Húsavík. Tryggvi Finnsson forstjóri Fiskiðjusamlags Húsavíkur var á skrifstofu sinni á fjórðu hæð ásamt bókar og lýsir því í samtali við Húsavík.com hvernig skjáltinn virtist engan enda ætla að taka.

Sigurður Pétur Björnsson, Silli, fór um vorið á Kópasker og tók myndir af eyðileggingunni og eru þær varðveittar á Héraðsskjalasafni Þingeyinga.

Myndir úr Ljósmyndasafni Þingeyinga. Snorri Guðjón Sigurðsson færði á stafrænt form.