Huld Hafliðadóttir hefur verið áberandi í samfélaginu á Húsavík um árabil, en hún stofnaði og leiðir starf samtakanna STEM Húsavík sem vinna að vísindalæsi ungs fólks í Þingeyjarsýlum, og raunar allra sem vilja efla færni sína. Huld fór að heiman aðeins 16 ára gömul, bjó um tíma í Reykjavík og Þýskalandi, var í skiptinámi bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi og sótti sér fjölbreytta menntun áður en hún sneri aftur heim til Húsavíkur tíu árum síðar og hefur verið hér síðan að vinna að fjölbreyttum samfélagsverkefmnu.
Huld er menntuð í félagsvísindum frá Háskólanum á Akureyri, hefur einnig lagt stund á nám í félagsráðgjöf og þýsku við Háskóla Íslands og bætt við sig kennararéttindum í jóga og hugleiðslu, sem hún hefur kennt í yfir 15 ár. Nú er hún í meistaranámi í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún er gift Jóanni Gunnari Sigurðssyni og saman eiga þau þrjú börn, á ólíkum aldurs- og lífsskeiðum, sem endurspegla vel þá framtíð sem Huld vinnur markvisst að: samfélag þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að þróa færni, sjálfstraust og rödd.
Úr þessum jarðvegi, blöndu af fræðilegum bakgrunni, samfélagslegri hugsun og djúpum tengslum við samfélagið á Húsavík, spratt hugmyndin að STEM Húsavík. Í sunnudagsviðtalinu ræðir Örlygur Hnefill við Huld um hvernig alþjóðleg hugmyndafræði um samfélagsmiðuð STEM-námsvistkerfi varð að lifandi verkefni á Húsavík, hvernig það leiddi af sér stofnun STEM Íslands og hvers vegna hún telur að framtíð menntunar, nýsköpunar og byggðaþróunar á Íslandi ráðist ekki síst af því að efla færni, forvitni og þátttöku fólks, ekki síst á landsbyggðunum.
Neðst í viðtalinu er hægt að horfa á tvo nýja þætti sem Húsavík.com framleiddi fyrir STEM Húsavík um framtíðarfundi, ungt fólk í samfélaginu og gervigreind.

Hvernig fæddist hugmyndin að STEM Húsavík og hvernig þróaðist svo STEM Ísland úr því?
„Hugmyndin fæddst þegar ég hitti Bridget Burger, sem var þá forstöðukona svipaðs vistkerfis í Cape Cod í Bandaríkjunum. Hún sagði mér frá þessari samfélagslegu nálgun við að efla STEM menntun og færni og ég féll algjörlega fyrir henni, en hún snýr að því að samfélagið kemur saman að borðinu með sameiginlegt markmið um að efla færni fyrir framtíðina og bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til náms innan og utan veggja hefðbundinna menntastofnana. Með minn bakgrunn í félagsfræði hef ég sérstakan áhuga á því sem getur markvisst valdeflt samfélög, aukið seiglu og fjölgað möguleikum til menntunar, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem tækifærin eru oft færri.“
Þetta tiltekna módel eða aðferðafræði fagnaði 10 ára starfsafmæli nú í ár og telur yfir 150 námsvistkerfi (STEM Learning Ecosystems) eins og STEM Húsavík, víðs vegar um heiminn. „Þetta er í raun ein skjótvirkasta leiðin fyrir þjóðir og samfélög til að bregðast við hraðri tækniþróun og breyttum kröfum á vinnumarkaði. Það er því ekki tilviljun að Evrópusambandið leggur nú ríka áherslu á þessa nálgun í nýrri stefnumótun sinni um STEM-menntun, þar sem samfélagsmiðuð STEM námsvistkerfi eru skilgreind sem lykilleið til að efla gæði, jafnt aðgengi og framtíðarfærni í menntakerfinu.“
„Við Bridget ákváðum að setja á fót STEM Húsavík, fyrsta STEM námsvistkerfið á Íslandi, og reyndar í Evrópu, vorið 2022 sem pilot verkefni en sáum það á sama tíma fyrir okkur sem tilraunaverkefni og fyrirmynd fyrir önnur samfélög og þaðan sprettur hugmyndin um STEM Ísland. Við settum STEM Ísland á fót ári síðar sem regnhlífarstofnun til að tengja saman vistkerfin á Íslandi, en nú þegar hefur annað námsvistkerfi tekið til starfa, STEAM Borgarbyggð. Þó að aðferðafræðin sé eins, þá eru engin tvö vistkerfið eins, því þau byggja á því sem fyrir er í hverju samfélagi. Námsvistkerfin tvö eru þegar farin að deila reynslu, en leikskólinn Grænuvellir deildi reynslu sinni af innleiðingu STEM í námskrána hjá sér með leikskólanum í Borgarnesi, þannig að við erum nú þegar farið að sjá tengslin og samstarfið bera ávöxt.“
Hvaða markmið hafið þið með samtökunum?
„Markmið STEM Húsavík sem námsvistkerfi er að efla íbúa og byggja upp færni með því að tengja saman fjöldbreyttar auðlindir, náttúru og samfélag og markmið STEM Íslands sem regnhlífarstofnun er einfaldlega að efla STEM menntun á Íslandi.
STEM Húsavík hefur einbeitt sér að því að styðja við kennara og auka fjölbreytta möguleika til endurmenntunar í STEM, en kennarar gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að efla STEM menntun. Vegna þess hve hröð þróunin er, er mikilvægt að auka framboð endurmenntunar og stuðning við kennara. Við höfum boðið vinnustofur, sett á fót tækjasafn til að lána út tæki og tól, auk þess sem við unnum að innleiðingu STEM í leikskólann Grænuvelli. Þá munum við fyrri hluta ársins 2026 bjóða STEM kennurum frá Húsavík í Erasmus+ endurmenntunarferð innan Evrópu. Þá höfum við haldið úti Náttúruvísindanámskeiði á sumrin, nú þrjú sumur í röð, fyrir börn á aldrinum 9-13 ára, en það er einmitt sá aldur þegar börn missa bæði áhuga og sjálfstraust í raungreinum.“
Mikilvægt að efla færni á landsbyggðunum
Huld segir að eitt brýnasta verkefnið sé að efla færni á landsbyggðunum, eigi Ísland að eiga möguleika í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að störfum framtíðarinnar. „Hvað stóra samhengið varðar og STEM Ísland, þá erum við nú þegar í samstarfi við Háskóla Íslands, bæði menntavísindasvið og verk- og náttúruvísindasvið, en þau styrkja STEM Ísland með hluta af mínu stöðugildi. Þannig þjónar STEM Ísland sem farvegur til að streyma bæði úrræðum til samfélaga, en ekki síður að koma upplýsingum úr grasrótinni til vísinda- og rannsóknarsamfélagsins, t.d. hvað virkar og hvað virkar ekki á landsbyggðinni.
Þá erum við stofnaðilar að Nordic STEM Education Alliance eða Norræna STEM ráðinu, sem við settum á fót á árinu, ásamt leiðandi aðilum í STEM menntun á hinum Norðurlöndunum, til að mynda Astra í Danmörku, LUMA Center í Finnlandi og Naturfagsenteret í Noregi, ásamt ráðuneytum í Færeyjum og Grænlandi, en þar þróum við sameiginlegar lausnir fyrir framtíðarmenntun á Norðurlöndum. Með þessu erum við vel tengd við leiðandi aðila bæði vestanhafs og í Evrópu.“
Hvernig vinnið þið að því að gefa ungu fólki rödd í samfélaginu okkar? „Við vinnum út frá þeirri sýn að ungt fólk sé ekki aðeins framtíðin, heldur virkir þátttakendur í samfélaginu núna. Í verkefnum STEM Húsavík fá börn og ungmenni tækifæri til að spyrja eigin spurninga, vinna að raunverulegum viðfangsefnum og sjá hvernig þeirra hugmyndir tengjast samfélaginu í kringum þau, náttúru, atvinnulífi og daglegu lífi.
Í stað þess að leggja áherslu á „rétt svör“ leggjum við áherslu á ferlið, en vísindalega aðferðin leggur grunn að öllum okkar verkefnum. Þannig styðjum við börn og ungmenni til að læra að hugsa gagnrýnið, vinna saman, prófa, mistakast og endurbæta. Þetta styrkir ekki aðeins STEM færni heldur líka sjálfstraust, rödd og tilfinningu fyrir því að maður geti haft áhrif.
Þegar börn upplifa að spurningar þeirra skipta máli og að fullorðnir í samfélaginu hlusti, þá er verið að leggja grunn að virkri þátttöku í lýðræðissamfélagi.“
Hvaða þættir eru það sem þið viljið efla í færni ungmenna, og alls samfélagsins?
„Við viljum efla bæði tæknilega og mannlega færni, enda lifum við á tímum hraðra breytinga þar sem óvissa og flókin viðfangsefni eru orðin hluti af daglegu lífi. Það gerum við með því að styrkja kjarnafærni í STEM-greinum, eða vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Með því að stuðla að bættri kjarnafærni í þessum greinum, fylgir jafnframt mýkri færni eins og gagnrýnin hugsun, skapandi lausnaleit, samstarf, seigla og hæfni til að læra nýja hluti í síbreytilegu umhverfi.“
„Þetta snýst ekki um að allir verði verkfræðingar eða vísindamenn, heldur um að allir byggi upp þá færni sem þarf til að skilja heiminn og taka upplýstar ákvarðanir.“

Aukið vísinda-, umhverfis- og tæknilæsi samfélagsins alls
„STEM snýst ekki bara um stærðfræði, tækni eða forritun, heldur um að spyrja góðra spurninga, greina upplýsingar og takast á við áskoranir í daglegu lífi, færni sem gagnast ekki bara ungmennum heldur samfélaginu öllu, hvort sem fólk starfar í menntun, ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, sjávarútvegi eða nýsköpun.“
„Fyrir samfélög á landsbyggðinni er þessi færni sérstaklega mikilvæg, því hún ýtir undir sjálfbærni, aðlögunarhæfni og möguleika fólks til að skapa tækifæri heima fyrir.“
Hvað er framundan hjá ykkur?
„Það eru ýmsir spennandi hlutir í farvatninu, m.a. að taka í notkun nýtt námsefni fyrir kennara leik- og grunnskóla til að nota með tækjasafni STEM Húsavík, auk þess sem við erum að stíga fyrstu skrefin í samstarfi okkar við Frístundi í Borgarhólsskóla, með því að bjóða uppá það sem við köllum “hands-on” STEM smiðjur. Þá erum við líka að vinna spennandi verkefni með samtökunum Móðurmál á Norðurlandi, sem miðar að því að nota STEM til að styðja við íslenskukennslu tvítyngdra barna og fjölskyldna.“
Hægt er að fylgjast með starfi STEM Húsavík á www.facebook.com/stemhusavik auk þess sem þau erum með heimasíðurnar www.stemhusavik.is og www.stemisland.is. Huld segir að umfram allt sé öllum áhugasömum velkomið að taka þátt, en vistkerfið er ekki ein stofnun, heldur lifandi samfélagsverkefni sem vex og þróast.
Þáttur 1: Framtíðin er okkar

