Leikfélag Húsavíkur stefnir á metnaðarfullt leikár og hyggst setja upp söngleikinn The Rocky Horror Picture Show á svið nú í vetur. Undirbúningur er hafinn og boðar leikfélagið nú til upplýsingafundar fyrir öll sem hafa áhuga á að taka þátt, hvort sem er á sviði eða bak við tjöldin. Upplýsingafundurinn verður í Fiskifjöru fimmtudaginn 15.janúar og hefst klukkan 20:00.
„Við hjá LH erum stórhuga í ár. Við ætlum að setja upp Rocky Horror,“ segir Helga Sveinbjörnsdóttir, formaður Leikfélags Húsavíkur, í samtali við Húsavík.com. Að hennar sögn er vinnan að hefjast af krafti nú í janúar þó mikilvægir þættir séu þegar komnir í höfn. „Við erum komin með leikstjóra, Eyvind Karlsson, og einnig með mjög flott tónlistarfólk í nánast mannaða hljómsveit.“
Næstu skref eru að sögn Helgu að halda opinn upplýsingafund og í kjölfarið fari fram samlestur. Við verðum svo með söngsmiðju helgina 23. til 25. janúar. Hún verður auglýst sérstaklega. Æfingar fara svo í fullan gang eftir þá helgi. Samhliða fari önnur vinna af stað, svo sem sviðsmyndagerð, búningar, tæknimál, kynningarefni og leikgervi. „Það eru mörg verkefni sem fylgja þessari uppsetningu og við vonumst til að fá sem flest í lið með okkur,“ segir hún.
Leiklistarstarf byggir á samvinnu og samveru
Helga leggur ríka áherslu á að verkefni sem þetta byggi á samvinnu og samveru. „Svona uppsetning í áhugaleikhúsi kallar á vináttu og virðingu. Það er þessi samvera sem gefur kraftinn og galdrana í leikhúsinu.“ Hún segir í mörg horn að líta og að leikfélagið sé ávallt opið fyrir nýju fólki. „Við notum tækifærið og köllum eftir nýjum þátttakendum. Við hvetjum öll sem hafa tök á, og nýbúa á Húsavík sérstaklega, til að koma á upplýsingafundinn til að kynnast starfinu og hitta bæði vana og óvana.“
Að sögn Helgu er engin krafa um að vera félagi í Leikfélagi Húsavíkur til að taka þátt, hvorki á sviði né bak við tjöldin. „Allir eru velkomnir sem hafa áhuga og vilja leggja sitt af mörkum.“

