Í dag lauk árlegu norrænu Fab Lab Bootcampi sem haldið var í Fab Lab Húsavík, með þátttöku um 30 fulltrúa frá Fab Lab smiðjum alls staðar að af Norðurlöndunum.
Bootcampið sem var í fimm daga gekk einstaklega vel og ríkti mikil samheldni og kraftur í hópnum. Þátttakendur lögðu sig fram um að efla færni sína og kynnast nýjustu tækni í stafrænum smiðjum, meðal annars á sviði gervigreindar, rafeindatækni, CAD og CAM hönnunar, auk kennslu, rekstrar og samstarfs Fab Lab smiðja.
Gestirnir voru afar ánægðir með dvölina á Húsavík og nýttu sér þjónustu bæjarins vel, þar á meðal veitingastaði, gistingu, verslanir og afþreyingu. Heimsókn í Geosea, kvöldvökur og góð samvera utan dagskrár styrktu tengsl hópsins enn frekar. Að sögn eins þátttakandans, Joakim Wahlberg, hefur hann aldrei verið á Fab Lab ráðstefnu áður þar sem unnið er fram á nótt og meira að segja fram á síðustu mínútu ráðstefnunnar. Vildi hann meina að þar spilaði inn í að þetta væri sérlega vel búið Fab Lab og skemmtilegt Bootcamp.
„Við erum ofsalega hamingjusöm með þessa frábæru ráðstefnu sem er að klárast hér á Húsavík,“ segir Stefán Pétur, verkefnastjóri Hraðsins. „Á þessum dögum höfum við lært mikið hvert af öðru, ekki síst með því að glíma saman við áskoranir sem fylgja því þegar tæknigræjur bila, sem þær gera auðvitað alltaf.“
Sumir þátttakendur halda nú heim á leið en aðrir verða hér áfram og ætla að ferðast um svæðið næstu daga og skoða Húsavík og nágrenni í vetrarhamnum.
„Við erum öll mjög þreytt og glöð og eigum nú heimboð í aðrar smiðjur um öll Norðurlöndin,“ segir Stefán að lokum.

