Landkönnunarhátíðin var haldin á Húsavík í ellefta sinn dagana 11.–16. nóvember. Á dagskrá voru fjölbreyttar kvikmyndasýningar, fræðsluerindi og vettvangsferðir þar sem fjallað var um landkönnun, vísindi og náttúru. Sýndar voru 22 kvikmyndir frá 17 löndum og tóku þátttakendur víðsvegar að úr heiminum þátt í hátíðinni.
Formleg opnun hátíðarinnar fór fram síðdegis á fimmtudag í Eurovision safninu. Þar fluttu stutt ávörp Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings og R. Ravindra sendiherra Indlands á Íslandi.
Í kjölfarið flutti Tira Shubart, fjölmiðlakona og sérfræðingur í geim- og heimsmálum, fyrirlestur undir yfirskriftinni Chandrayaan: Nýtt skeið tunglferða þar sem hún fjallaði um vaxandi hlutverk Indlands í næstu bylgju tunglferða.
Sýndar voru kvikmyndir á kvöldin með pallborðsumræðum að sýningum loknum. Þar á meðal voru Chasing the Arctic Melt með þátttöku leikstjórans, Look Down Not Up með ræðum frá höfundi og leikstjóra, og A Tale of Two Qallunaat, áhrifamikil saga um samskipti Inuit-fólks og Kanadamanna.
Á föstudegi og sunnudegi voru jarðfræðiferðir farnar frá Húsavík í Mývatnssveit undir leiðsögn Jónasar Helgasonar frá Grænavatni og í Hallbjarnarstaðakamb.
Á laugardagskvöld flutti Michelle Lucas, fyrrverandi yfirmaður hjá NASA, fyrirlestur um áhrif geimsins á ungt fólk og hvernig geimferðalög geta vakið upp forvitni og sköpunargleði, en á sunnudag var hátíðarkvöldverður og verðlaun Leifs Eiríkssonar en þau hlaut geimfarinn Charlie Duke. Hátíðinni lauk svo á mánudagsmorgun með heimsókn nemenda Borgarhólsskóla í safnið þar sem þær Michelle Lucas, Ava Crowder og Örlygur Hnefill svöruðu spurningum nemenda um geimferðir og geimvísindi.

