„Almyrkvar eru stærsta sýning náttúrunnar“

Þann 12. ágúst 2026 upplifir Ísland almyrkva á sólu í fyrsta sinn síðan 1954. Slóð almyrkvans liggur yfir Vestfirði, Snæfellsnes, höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskaga, en norðanlands verður sýningin einnig eftirminnileg, þó þar sé um deildarmyrkva að ræða. Á Húsavík verður mest 97.39% deildarmyrkvi og stendur hann yfir í 1 klukkustund, 58 mínútur og 31 sekúndu. Örlygur Hnefill ritstjóri Húsavík.com ræddi við Sævar Helga Bragason, betur þekktan sem Stjörnu-Sævar, um við hverju íbúar á Húsavík og Norðurlandi geti búist, og þá fegurð og upplifun sem bíður Íslendinga næsta sumar.

Sævar Helgi hefur lengi verið helsti boðberi fegurðar sólmyrkva á Íslandi, en hann er jarðfræðingur að mennt, kennari og einn þekktasti vísindafræðari landsins. Sævar vakti mikla athygli árið 2015 þegar hann réðst í það stórvirki að gefa öllum grunnskólabörnum landsins, 54 þúsund að tölu, sólmyrkvagleraugu til að upplifa deildarmyrkvann sem þá varð mestur 99.4% á Austurlandi. Síðan þá hefur Sævar ferðast víða um heim til að upplifa sólmyrkva og hefur um langt skeið undirbúið almyrkvann sem verður á hér á landi á næsta ári. Sævar hefur auk þess starfað við vísindamiðlun fyrir Háskóla Íslands, kennt stjarnvísindi í framhaldsskólum landsins, sem og í Háskóla unga fólksins, Háskólalestinni og Vísindasmiðjunni.

Við spurðum Sævar fyrst hvenær hann hafði byrjað undirbúning fyrir almyrkvann 2026. „Ég byrjaði að undirbúa mig fyrir 2026 fyrir áratug, árið 2015, þegar deildarmyrkvinn varð það ár. En undirbúningurinn fyrir almyrkvann sjálfan hófst fyrir alvöru í ársbyrjun 2024,“ segir Sævar.

En hvað er það sem gerir sólmyrkva svona einstaka? „Almyrkvar á sólu eru stórfenglegasta sýning náttúrunnar. Það er ekkert sem kemst nálægt þeim því öll náttúran bregst við. Hef fjórum sinnum séð almyrkva og grátið í öll skiptin yfir óviðjafnanlegri fegurð. Ekki missa af! Maður sér nefnilega ekki aðeins almyrkva, maður upplifir almyrkva. “

Við hverju geta íbúar á Húsavík og Norðurlandi búist? „Austan almyrkvaslóðar, til dæmis á Norðurlandi, verður verulegur deildarmyrkvi. Við upplifum öll gullfallega breytingu á birtu en austan almyrkvaslóðar missir fólk auðvitað af tilkomumesta sjónarspilinu, sem er almyrkvinn sjálfur.“

Mælir þú þá með að ferðast inn á slóð almyrkvans? „Já, fólk ætti svo sannarlega að gera sér ferð inn í slóðina. Þetta er nefnilega engu líkt og kemur öllum á óvart sem upplifa. “

Umfjöllun Morgunblaðsins um almyrkvann 30. júní 1954.

Almyrkvinn í ágúst 2026 verður sá fyrsti sem sést frá Íslandi síðan almyrkvi gekk yfir suðurströnd Íslands þann 30. júní 1954, en næsti almyrkvi sem gengur yfir Ísland verður ekki fyrr en árið 2196.

Almyrkvi er þegar tunglið gengur á milli jarðarinnar og sólar þannig að það hylur algerlega sólina frá jörðu séð. Má segja að það sé stjarnfræðileg tilviljun að við lifum á þeim tíma að diskur sólarinnar sé 400 sinnum stærri en tungl okkar, en á sama tíma 400 sinnum lengra í burtu, en almyrkvar hafa ekki orðið í allri sögu jarðarinnar og munu hætta þegar þessi afstaða breytist.

Myrkvinn þann 12. ágúst á næsta ári verður í hámarki yfir hafinu skammt vestan Látrabjargs klukkan 17:45.53 og þegar hefur fjöldi skemmtiferðaskipa auglýst ferðir sem verða á þeim slóðum á þeirri stundu.

Missi Húsvíkingar af sjónarspilinu nú, þá gefst annað tækifæri þann 11. júní árið 2048, en þá verður 87.39% myrkvi sýnilegur frá Húsavík. Næsti almyrkvi á sólu á Húsavík verður hins vegar ekki fyrr en þann 7. september árið 2974, eða eftir 949 ár. Gefur það okkur ágæta hugmynd um hve einstakir viðburðir þetta eru.

Sævar vinnur nú pistil um deildarmyrkvann fyrir vefsíðuna solmyrkvi2026.is og hvetur alla, nær og fjær, til að undirbúa sig. „Ekki missa af þessu einstaka sjónarspili.“

Slóð almyrkvans, kort af vefsíðunni solmyrkvi2026.is