Fulltrúar Framsýnar stéttarfélags og orkufyrirtækjanna Qair Ísland og Arctic Hydro funduðu á Húsavík í gær, í kjölfar jákvæðra tíðinda um stórátak stjórnvalda í styrkingu flutnings- og dreifikerfis raforku á Norðausturlandi. Fyrirtækin reka þegar vatnsaflsvirkjanir í Tjörneshreppi og á Vopnafirði og vinna jafnframt að fjölda nýrra verkefna, þar á meðal vindorkukostinum Hnotasteini í Norðurþingi og vatnsaflskostum í Dalvíkurbyggð, Þistilfirði og Bakkafirði.
Á fundinum var ljóst að fyrirhugaðar framkvæmdir RARIK og Landsnets, 33 kV jarðstrengur milli Vopnafjarðar og Þórshafnar og nýtt 132 kV tengivirki á Bakka, munu styrkja raforkuöryggi svæðisins verulega og skapa forsendur fyrir atvinnuuppbyggingu. Á sama tíma gegna orkufyrirtækin sjálf lykilhlutverki, þar sem væntanleg framleiðsla þeirra mun styðja fjárhagslega við uppbygginguna og hraða framkvæmdum.
Fundarmenn voru sammála um að svæðið standi á tímamótum og að brýnt sé að hraða uppbyggingu nýrra orkuverkefna í Þingeyjarsýslum til að svara kalli atvinnulífsins, ekki síst í ljósi stöðvunar starfsemi PCC. Á fundinum sátu m.a. Ásgeir Margeirsson, Skírnir Sigurbjörnsson og Friðjón Þórðarson af hálfu orkufyrirtækjanna og fulltrúar Framsýnar undir forystu Aðalsteins Árna Baldurssonar.

