Fab Lab smiðjan á Húsavík hefur nú bætt við sig öflugri laserskurðarvél sem getur skorið í málma – fyrstu slíkri vél sem tekin er í notkun í Fab Lab smiðjum á Íslandi. Vélin er gjöf frá GPG Seafood, sem hefur verið öflugur bakhjarl Fab Lab á Húsavík undanfarin ár.
„Fab Lab smiðjur eru innviður samfélagsins og fyrir alla,“ segir Stefán Pétur Sólveigarson, verkefnastjóri Fab Lab Húsavík. Hann segir fyrirtæki á svæðinu hafa sýnt mikinn stuðning, og þakkar sérstaklega GPG fyrir þessa tímamótagjöf. „GPG hefur nú gefið Fab Lab Húsavík þessa mögnuðu laserskurðarvél sem getur skorið málma. Hingað til hefur það ekki verið hægt í Fab Lab smiðju á Íslandi – en þökk sé GPG er það nú mögulegt hér á Húsavík.“
Í tilefni af komu vélarinnar verður haldinn sérstakur GPG-dagur í Fab Lab Húsavík í dag frá kl. 15–17. Þar verður vélin sýnd í notkun og gestir fá jólakúlu að gjöf frá GPG, sem þeir geta persónugert á staðnum.
„Við þökkum GPG kærlega fyrir þessa mögnuðu gjöf,“ segir Stefán og bendir á að vélin muni efla nýsköpun, atvinnulíf og menntun á svæðinu til framtíðar.


