Síðastliðinn föstudag veitti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, verðlaun vegna Forvarnardagsins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Daníel Snær Lund, Gunnar Hólm Guðmundsson og Heimir Örn Karolínuson, allir nemendur við Framhaldsskólann á Húsavík, hlutu verðlaun í flokki verkefna framhaldsskóla. Heimir og Gunnar kynntu verkefnið fyrir forseta og öðrum gestum.
Forvarnardagurinn er árlegur viðburður þar sem áhersla er lögð á ungmenni í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nemendur vinna með þætti sem geta dregið úr áhættuhegðun og taka þátt í verðlaunaleik með fjölbreyttum verkefnum.
Nemendur í lífsleikni á fyrsta ári í FSH unnu með þemað „Skjárinn, síminn, samfélagsmiðlar“ og fjölluðu um áskoranir sem tengjast stafrænu umhverfi. Verðlaunahópurinn samdi texta og nýtti gervigreind til að syngja lagið sem skilaði þeim sigri.


