Nemendur FSH verðlaunaðir á Bessastöðum

Síðastliðinn föstudag veitti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, verðlaun vegna Forvarnardagsins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Daníel Snær Lund, Gunnar Hólm Guðmundsson og Heimir Örn Karolínuson, allir nemendur við Framhaldsskólann á Húsavík, hlutu verðlaun í flokki verkefna framhaldsskóla. Heimir og Gunnar kynntu verkefnið fyrir forseta og öðrum gestum.

Forvarnardagurinn er árlegur viðburður þar sem áhersla er lögð á ungmenni í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nemendur vinna með þætti sem geta dregið úr áhættuhegðun og taka þátt í verðlaunaleik með fjölbreyttum verkefnum.

Nemendur í lífsleikni á fyrsta ári í FSH unnu með þemað „Skjárinn, síminn, samfélagsmiðlar“ og fjölluðu um áskoranir sem tengjast stafrænu umhverfi. Verðlaunahópurinn samdi texta og nýtti gervigreind til að syngja lagið sem skilaði þeim sigri.

Gunnar og Heimir ásamt Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og Karolínu Kristínu Gunnlaugsdóttur