Þegar sveitarstjóri skrifar undir grein þar sem „kerfið“ er sett fram sem ástæða þess að ekkert sé hægt að gera, þá er eitthvað bogið við frásögnina. Sveitarfélagið er kerfið – og hefur vald til að breyta stefnu, forgangsröðun og jafnvel skipulagi þegar vilji er fyrir hendi. Helguskúr á ekki að hverfa í skugga forms og orðhengilsháttar. Þetta snýst um ábyrgð, sanngirni og traust: að kjörnir fulltrúar geri það sem þeir telja best fyrir núverandi og framtíðar íbúa sveitarfélagsins – ekki að vísa í „ómöguleika“ sem er í reynd val.
Ég vil því benda á nokkur atriði í fréttinni sem sveitarstjóri skrifar undir. Þar virðist hún – líkt og aðrir embættismenn – vilja komast heldur billega frá ábyrgðinni og kenna „kerfinu“ um að ekkert sé hægt að gera. Sérkennilegt, frá yfirmanni „kerfisins“.
Sveitarstjóri skrifar meðal annars:
„Ég vona að ofangreind samantekt varpi ljósi á stöðuna og ómöguleika þess að framfylgja ekki ákvörðunum fyrri sveitarstjórnar frá 2016 og 2017 og ákvæðum gildandi deiliskipulags miðhafnarsvæðisins.“
Deiliskipulag er mannanna verk. Og því er því breytt – oft og reglulega – af ýmsum ástæðum. Fram og til baka. Það er ekkert „ómögulegt“ við að endurskoða skipulag ef vilji er til staðar.
Ákvarðanir fyrri sveitarstjórna eru ekki ósnertanlegar. Kjörnir fulltrúar geta endurmetið forsendur, forgangsröðun og leiðir að markmiðum – sérstaklega þegar nýjar upplýsingar liggja fyrir eða þegar sanngirni og almannahagsmunir kalla á aðra niðurstöðu. Að halda því fram að „engin leið“ sé fær er ekki hlutlaus staðreynd. Það er pólitísk afstaða.
Það er mikilvægt að gera greinarmun á frjálsum samningum og nauðarsamningum. Þegar tveir kostir eru í stöðunni — annaðhvort dómsmál við „kerfið“, með eigið fé og tíma að veði, gegn opinberu fé og starfsfólki á mánaðarkaupi, eða að láta undan — þá er ekki um frjálsa samninga að ræða í neinum heilbrigðum skilningi.
Að vísa í „kerfið“ getur orðið þægileg leið til að þvo hendur. En ef vilji er fyrir hendi er hægt að finna lausnir: endurskoða forsendur, leita sátta og móta skýra stefnu um varðveislu menningarverðmæta. Orðalag um „ómöguleika“ er ekki lausn. Það er undanbragð.
Sveitarfélagið heldur enn og aftur fram – gegn betri vitund – að húsið hafi verið á stöðuleyfi sem hafi runnið út. En stöðuleyfið var gefið út einhliða (mannanna verk – af embættismanni sveitarfélagsins) og án þess að lögum og reglum sveitarfélagsins væri fylgt; líklega til að bæta stöðu sveitarfélagsins.
Þar að auki hafa fasteignagjöld af Helguskúr verið greidd í áratugi, sem samræmist illa þeirri frásögn að um einhverja tímabundna og lauslega „stöðuleyfis-eign“ hafi verið að ræða.
Fyrrum eigandi átti alla tíð lóðarleiguréttindi, eins og kemur fram í skjölum — og það var raunar viðurkennt þegar samkomulag var gert vegna kröfu um að skúrinn og lóðin yrðu látin af hendi.
Helguskúr er nú eign íbúa Norðurþings — ekki andlitslauss sveitarfélagsins/„kerfisins“. Kjörnum fulltrúum er treyst fyrir því að gera það sem þeir telja best fyrir núverandi og framtíðar íbúa sveitarfélagsins — ekki að þjóna sérhagsmunum einstakra aðila.
Það er líka vert að nefna: ef sveitarfélagið er tilbúið að svína svona á ákveðnum einstaklingi, þá er ekkert því til fyrirstöðu að það geri það einnig við aðra.
Að lokum vil ég endurtaka fyrri áskorun mína til Norðurþings. Við skorum á ykkur að þegar öllu yfir líkur verði Hafnarstétt 15 ekki notuð sem skiptimynt í deilum Norðurþings við eigendur Hafnarstéttar 13.
Jafnframt skorum við á ykkur að ákvörðun um niðurrif verði endurskoðuð og að Helguskúr verði breytt í lifandi safn — íbúum og sveitarfélagi til sóma.
Andri Már Stefánsson, barnabarn Helga Héðinssonar – fyrrum eiganda Helguskúrs

