Ísak Már Aðalsteinsson tók í gær við sem framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga, og tekur hann við starfinu af Gunnhildi Hinriksdóttur sem hefur verið framkvæmdastjóri HSÞ frá upphafi árs 2018. Ísak er 33 ára Reykdælingur, búsettur með konu og tveimur börnum á Húsavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Laugum og er með BS í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Eftir útskrift frá Háskóla Íslands vann hann hjá Íslandshótelum á Húsavík í eitt og hálft ár áður en hann tók við sem stöðvarstjóri Íslandspósts á Húsavík. Eftir tæp 6 ár þar tók hann svo við sem sérfræðingur flutningslausna hjá PCC á Bakka og var þar til í áramóta. Húsavík.com heyrði í nýjum framkvæmdastjóra um hans áherslur í starfi og þær hugmyndir sem hann kemur með inn á þennan vettvang.
Rætur í öflugu íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjadal
„Ég ólst upp að mestu í Reykjadalnum, þar sem er hefð fyrir öfluga íþrótta- og tómstundastarfi, sem ég tók talsverðann þátt í. Eftir flutninga til Húsavíkur hef ég tekið þátt í ýmsu félagsstarfi, innan Völsungs og Ungmennafélagsins Eflingar, Leikfélags Húsavíkur, setið í stjórn Foreldrafélags Grænuvalla og sit fyrir hönd S-listans í Fjölskylduráði Norðurþings,“ segir Ísak í samtali við vefinn. Samhliða starfinu hjá HSÞ mun Ísak Már vinna áfram sem verkefnastjóri hjá Völsungi yfir samþættingarverkefninu.
En hvaða hlutverki telur nýr framkvæmdastjóri að HSÞ geti og eigi að gegna í samfélagi nútímans. „Flest allir Þingeyingar þekkja til HSÞ, en svæði HSÞ nær frá Grýtubakkahreppi í vestri og að Langanesbyggð í austri. Hlutverk HSÞ er að stjórna sameiginlegum íþróttamálum innan héraðsins, stuðla að fjölbreyttu íþrótta- og félagsmálastarfi aðildarfélagana og vera málsvari þeirra út á við. Einnig er hlutverk HSÞ í skiptingu fés frá ÍSÍ og UMFÍ skv reglum sambandsins sem og að fylgjast með og aðstoða aðildarfélögin við að vinna skv. gildandi lögum íþróttahreyfingarinnar hverju sinni,“ segir Ísak.
Hvaða hugmyndir kemur þú með inn í félagið? „Fyrst og fremst vil ég halda áfram því starfi sem forveri minn hefur unnið, vera íþrótta- og ungmennafélögunum innan handar og aðstoða félögin í þeim verkefnum sem þau sinna. Þjónustusvæðið er gífurlega stórt og klárlega áskoranir sem það felur í sér. Ég bind þó vonir við að hægt verði að auka á samvinnu og samstarf milli íþróttafélaga.“
Ólst upp við gömlu héraðsmótin og sumarleika á Laugum
Hvaða viðburðum hefur þú áhuga á að koma í gang? „Hlutverk HSÞ verður fyrst og fremst aðstoð við skipulag, undirbúning og framkvæmd móta í héraðinu. Hins vegar hef ég áhuga á að beita mér fyrir því að auka á sameiginlegar æfingar og keppnir milli aðildarfélagana. Ég ólst upp við gömlu héraðsmótin í fótbolta og sumarleika HSÞ á Laugum og sé fyrir mér tækifæri fyrir félögin til þess að stytta vegalengdina á milli með auknu samstarfi,“ segir Ísak að lokum.
Húsavík.com óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.

