Eftir helgina hefjast breytingar á Eurovision safninu á Húsavík. Eftir lokun í dag mun starfsfólk safnsins taka Gleðibankann niður og hefja uppsetningu nýrra sýningargripa sem nýverið voru gefnir safninu.
„Við munum tilkynna formlega í vikunni um þessa nýju sýningarmuni. Við erum mjög spennt að segja frá þessu, en viljum halda leynd yfir því þar til þeir eru komnir á sinn stað í safninu. Ég get þó sagt í dag að þeir hafa sterka tengingu við Eurovision-ævintýrið á Húsavík,“ segir Örlygur Hnefill safnstjóri, glaður í bragði.
Gleðibankinn, sem er í eigu RÚV, hefur verið á láni til Eurovision safnsins á Húsavík undanfarin ár, er nú á leið aftur í Efstaleiti.
„RÚV hefur verið ánægt með að taka þátt í uppbyggingu Eurovision safnsins á Húsavík með því að lána safninu búninga Icy-tríósins sem fluttu lagið Gleðibankann í Eurovision árið 1986. Gleðibankinn var fyrsta lagið sem Ísland sendi í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, en þá hafði RÚV loksins náð gervihnattasambandi við útlönd,“ segir Helga Rún Pálsdóttir, verkefnastjóri og búningahönnuður hjá RÚV.
„Nú munu búningar Icy-tríósins flytja aftur til RÚV þar sem þeir verða sýndir og munu eflaust birtast aftur á skjánum í tilefni þess að 40 ár verða liðin frá upphafi þátttöku Íslendinga í Eurovision,“ segir Helga. Árið 2026 markar einmitt 40 ár frá því að Gleðibankinn var framlag Íslands þegar við kepptum í fyrsta sinn í Eurovision-keppninni.
Það er því tilvalið að gera sér ferð í Eurovision safnið í dag, sunnudag, til að sjá þessa mögnuðu búninga í síðasta sinn á Húsavík. Ókeypis aðgangur verður í safnið frá klukkan 13:00 til 15:00.

