Ný brú yfir Skjálfandafljót og grjótgarður á Húsavík á samgönguáætlun

Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, kynnti í dag samgönguáætlun til ársins 2040 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Þar kom fram að ný brú yfir Skjálfandafljót verði reist á tímabilinu 2026–2030 og að áformin séu að fullu fjármögnuð. Vegagerðin hefur áður áætlað að ný brú og nýr vegarkafli verði tilbúin haustið 2028.

Aðaltenging Húsavíkur og Akureyrar liggur nú um rúmlega 90 ára gamla einbreiða brú í Útkinn, þar sem um 650 bílar fóru yfir á sólarhring áður en loka þurfti henni fyrir þyngri umferð árið 2023. Sveitarstjórnir Norðurþings og Þingeyjarsveitar hafa árum saman kallað eftir nýrri brú, enda er hún ein mikilvægasta samgönguæð svæðisins.

Ráðherra tilkynnti jafnframt að ríkið muni ráðstafa 21 milljarði króna til hafnabótasjóðs á árunum 2026–2040. Þar af munu minni hafnir, sem gegna lykilhlutverki í öryggi og atvinnuuppbyggingu, fá aukinn stuðning. „Við reisum nýjan grjótgarð á Húsavík,“ sagði Eyjólfur og staðfesti þar með öflugar hafnarframkvæmdir. Koma þessar fréttir í framhaldi af staðfestingu á nýju tengivirki á Bakka og því ljóst að horfur til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu eru góðar, þrátt fyrir áföll vegna lokunar PCC.

Breytingar á forgangsröðun jarðgangaframkvæmda voru einnig kynntar og boðað til stofnunar nýs innviðafélags sem mun koma að fjármögnun og flýta stórum samgönguframkvæmdum um land allt.


Tölvuteikning af fyrirhugaðri brú af vefsíðu Vegagerðinnar