Inga Björg Brynjúlfsdóttir: 15 ára á leið á Evrópumót

Inga Björg Brynjúlfsdóttir blakkona úr Völsungi er aðeins 15 ára, en er þegar orðin ein af þeim ungu íþróttamönnum hérlendis sem horft er til með mikilli eftirvæntingu. Hún hefur á stuttum tíma fetað sig frá fyrstu æfingum yfir í lykilhlutverk í U-18 landsliði Íslands og í sumar bíður hennar stærsta verkefnið á sviði evrópsks unglingablaks. Í sunnudagsviðtalinu ræðir Örlygur Hnefill við Ingu Björg um ferilinn, framtíðina og tilfinninguna að tryggja sér sæti á Evrópumótinu í sumar.

„Ég held að spennan komi þegar nær dregur mótinu“

Hún byrjaði að mæta á æfingar af forvitni árið 2021 og fann strax að eitthvað smellpassaði. Í dag, aðeins rúmum fjórum árum síðar, er Inga Björg Brynjúlfsdóttir orðin lykilmaður í U-18 landsliði Íslands í blaki og stefnir á Evrópumótið í sumar. Ferðin hefur verið hröð, krefjandi og lærdómsrík – og hún er bara rétt að byrja.

Blakið kom snemma inn í líf Ingu. Móðir hennar æfði blak í nokkur ár og Inga fylgdist grannt með úr stúkunni áður en hún sjálf steig inn á völlinn. „Ég byrjaði blakferilinn minn árið 2021, þegar ég mætti á fyrstu æfingarnar mínar og fann strax mikinn áhuga,“ segir hún. Þótt hún hafi prófað fleiri íþróttir í æsku, meðal annars fótbolta, handbolta og sund, þá var það blakið sem heillaði mest. „Ég fann fljótt að þetta var íþróttin sem mig langaði að einbeita mér að.“

Aðeins 15 ára gömul er Inga þegar orðin lykilhluti af landsliðinu sem hefur tryggt sér sæti á Evrópumóti U-18 sem fer fram í sumar. Spennan er þó ekki alveg búin að ná henni enn. „Ég held að ég sé ekki alveg búin að meðtaka það að við séum komnar á Evrópumótið. Ég held að þessi spennutilfinning komi þegar nær dregur mótinu,“ segir hún. Sigurinn í undankeppninni á Írlandi var þó sætt augnablik. „Það var ótrúlega gaman að vinna þetta mót, enda frábært lið og þjálfarar sem voru með okkur í gegnum allt.“

Inga Björg var valin ein af athyglisverðustu leikmönnum mótsins á Írlandi.

Þróun Ingu sem leikmanns hefur verið hröð, en hún sjálf nefnir eitt skref sem hafi skipt sköpum. „Ég var bara 12 ára þegar þjálfari meistaraflokks bauð mér að mæta á æfingar og vera á bekknum í leikjum. Það hjálpaði rosalega mikið,“ segir hún. Móttökurnar skiptu líka máli. „Ég fékk mjög góðar móttökur frá eldri stelpunum og lærði mikið af því að vera með þeim. Mest hef ég lært af Thelmu Dögg, landsliðsþjálfaranum mínum. Í vetur hef ég verið að spila mjög mikið en árin þar á undan spilaði ég minna en fékk samt nokkur tækifæri til að spreyta mig.“

Stuðningur úr samfélaginu skiptir miklu

Afreksíþróttir á þessum aldri krefjast fórna, og Inga dregur ekkert undan í því. „Ég á æðislega kennara sem gefa mér mikið svigrúm til að vinna upp eða vinna mér í haginn. Þau styðja mig líka mikið og hafa mikla trú á mér þannig það er líka æðsilegt að mæta í skólann og geta átt samræður við þau. En þetta er ekki alltaf auðvelt og ég þarf að vera mjög skipulögð og skynsöm með námið vegna þess að ég missi talsvert úr skóla. Ég missi líka töluvert úr félagslífi sem getur verið mjög erfitt, sérstaklega á þessum aldri þegar mikið er um að vera og þarf ég að fórna mörgum viðburðum vegna æfinga og ferðalaga, hvort heldur sem um helgar eða á virkum dögum.“

Að alast upp sem afreksíþróttakona á Húsavík hefur sína kosti. „Það er mjög vel haldið utan um okkur,“ segir Inga og hrósar blakstarfinu í bænum. „Stjórnin stendur sig rosalega vel, sér um leiki, ferðalög og allt skipulag.“ Stuðningurinn úr samfélaginu skiptir líka miklu. „Það er stór hópur sem mætir á leiki og mót, og við kunnum rosalega vel að meta það.“ Hún nefnir þó einnig áskoranir: búnaður sem mætti endurnýja og fámenni á æfingum sem getur stundum gert hlutina erfiðari.

Alþjóðleg keppni hefur kennt henni margt, ekki bara um blak, heldur líka um aga og samskipti. „Þetta var annað SCA-mótið mitt á innan við ári og ég lærði mikið á þeim báðum,“ segir hún. Reglurnar eru strangar, bæði á mótunum sjálfum og innan liðsins. „Það snýst um að mæta á réttum tíma, vera einbeitt og bera virðingu fyrir dómurum, starfsfólki og öðrum liðum.“ En stærsti lærdómurinn? „Að vera góður liðsfélagi og styðja aðra, bæði innan vallar og utan.“

Foreldrarnir mikilvægustu stuðningsmennirnir

Þegar Inga horfir fram á veginn er hún jarðbundin en metnaðarfull. Hún stefnir á framhaldsskóla eftir 10. bekk og að klára stúdentspróf, án þess að hafa enn ákveðið nákvæmlega hvað tekur við. Í blakinu er framtíðarsýnin skýrari. „Ég vil ná langt, mögulega fara erlendis ef tækifæri gefst og vonast til að spila með A-landsliðinu sem fyrst.“

Að lokum vill hún senda skýr skilaboð til ungra stelpna sem dreymir stórt. „Mætið á æfingar, jafnvel þegar ykkur langar ekki, það borgar sig,“ segir hún. Inga leggur áherslu á virðingu og samstöðu, en endar á því sem skiptir hana mestu máli. „Mikilvægast er að þakka foreldrum sínum. Þau verða alltaf stærstu og mikilvægustu stuðningsmennirnir.“ Foreldrar Ingu eru Helga Björg Pálmadóttir og Brynjúlfur Sigurðsson og hafa þau staðið dyggilega við bakið á dóttur sinni í stórum verkefnum síðustu ára.

Það verður spennandi að fylgjast með Ingu feta næstu skref á ferli sínum á komandi árum. Húsavík.com óskar henni til hamingju með árangurinn og góðs gengis á Evrópumótinu í sumar.

Tengdar fréttir: Blakdeild Völsungs