Grænuvellir: Víðtæk áhrif á leikskólastarf en tvær leiðir til skoðunar

Talsverðar breytingar hafa orðið á starfsemi leikskólans Grænuvalla á Húsavík frá því í nóvember, eftir að mygla greindist í starfsmannahúsi skólans við Iðavelli 8. Í kjölfarið var starfsmannaaðstaða flutt tímabundið inn í sal leikskólans, sem hefur haft veruleg áhrif á hefðbundið starf, sérstaklega á viðburði og sameiginlegt nám í aðdraganda jóla og á vorönn.

Leikskólinn tilkynnti foreldrum með tölvupósti 19. nóvember að breytingarnar myndu hafa áhrif á skipulagt starf frá og með 24. nóvember. Meðal þess sem féll niður í desember voru foreldraföndur, söngsalur og salardagar deilda. Salurinn hefur síðan verið nýttur undir kaffistofu, fundaraðstöðu og undirbúning kennara, þar sem starfsmannahúsið var tekið úr notkun eftir myglugreininguna. Grænuvellir eru eini leikskóli bæjarins, með átta deildir og um 150 börn.

Sigríður Valdís Snæbjörnsdóttir leikskólastjóri segir ósk starfsfólks að komast aftur með starfsmannaaðstöðuna í Iðavelli 8.

Fundað um málið eftir helgi

Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir leikskólastjóri segir stöðuna enn óljósa. „Næsti fundur starfshópsins er eftir helgi og þá vonast ég til þess að fá að vita hvert framhaldið verður. Ég veit þó að við vinnum með skerta starfsemi í leikskólanum líklega fram á haust, hver svo sem leiðin verður til að bæta starfsaðstæður,“ segir Sigríður Valdís í samtali við Húsavík.com.

Hún segir tvær leiðir vera til skoðunar í stjórnkerfinu. „Það liggur í raun ekkert fyrir opinberlega en það er verið að skoða tvær leiðir að lausnum á húsnæðisvandanum sem ég get ekki tjáð mig um fyrr en þær hafa farið fyrir viðeigandi ráð og nefndir. Ósk starfsfólks á leikskólanum er að komast aftur með starfsmannaaðstöðuna í Iðavelli 8 í endurnýjað húsnæði,“ segir Sigríður Valdís.

Áhrifin á starf leikskólans hafa verið víðtæk. „Þetta ástand hefur að sjálfsögðu talsverð áhrif á starf leikskólans. Salurinn var tekinn undir starfsmannaaðstöðu sem þýðir að sameiginlegt starf eins og tónlist og uppákomur eiga sér ekki stað nema hjá elsta árgangi sem fer í tónlistartíma í tónlistarskólanum,“ segir hún.

Fyrirhuguð STEM-smiðja í febrúar, í samstarfi við STEM Húsavík, fellur einnig niður. „Við unnum þróunarverkefni í STEM í samvinnu við STEM Húsavík og erum að reynslukeyra kennsluáætlanir á skólaárinu og verða börnin því af reynsluheiminum sem smiðjan hefði veitt,“ bætir hún við.

Einnig hefur sérkennslustarf orðið fyrir skakkaföllum og aðlögun nýrra barna í febrúar reynist flóknari en ella. „Í febrúar tökum við inn 12 ný börn í kringum eins árs aldurinn. Það er því krefjandi verkefni framundan fyrir nemendur og starfsfólk á meðan á aðlögun stendur,“ segir Sigríður Valdís.

Hún nefnir jafnframt að undirbúningsaðstaða kennara og kaffistofa séu í sama rými, án hljóðeinangrunar, og fundaaðstaða hafi nánast horfið. Þá hafi leikskólinn notið velvilja samfélagsins, meðal annars með láni á búnaði frá PCC, og foreldaráð hafi lagt áherslu á að bregðast þurfi fljótt við vegna neikvæðra áhrifa á nám barnanna.

Samheldinn hópur starfsfólks

„Þetta ástand fer að sjálfsögðu mis vel í fólk en á Grænuvöllum starfar ótrúlega lausnarmiðaður og samheldinn hópur sem gerir þetta aðeins þolanlegra,“ segir hún að lokum.

Húsnæðisvandi Grænuvalla er ekki eina myglumálið sem Norðurþing glímir við um þessar mundir. Stjórnsýsluhús sveitarfélagsins er enn lokað eftir að mygla fannst þar í febrúar 2024, fyrir að nálgast tveimur árum, og hefur stjórnsýsla sveitarfélagsins verið að mestu til húsa í Kaupfélagshúsinu að Garðarsbraut 5 síðan þá.