Helena Eydís Ingólfsdóttir, formaður Byggðaráðs Norðurþings, á sterkar og hlýjar minningar tengdar jólunum. Hún segir að þó hún telji sig vera meira sumarbarn í eðli sínu, þá eigi aðventan og jólin sérstakan stað í hjartanu ekki síst vegna samverunnar.
Ert þú mikil jólabarn? „Ég er reyndar sumarbarn og kann best að meta þann tíma ársins,“ segir Helena brosandi. „Kannski er það þó einmitt ástæðan fyrir því að ég kann orðið svo vel að meta jólin. Þegar jólin eru hringd inn er daginn farinn að lengja aftur og það þýðir að það styttist í sumarið.“
Helena segir að aðventan og jólin hafi með árunum orðið einn af hennar uppáhaldstímum ársins. „Ég nýt þess sérstaklega að hafa þennan tíma sem jólin gefa til að vera með fjölskyldu og vinum. Það er ómetanlegt.“
Eftirlætis jólahefðir Helenu Eydísar
Hefðirnar sem lifa í bernskuminningum um heimsóknir til bæði föður- og móðurömmu og afa á aðfangadag, hádegisverð á Hallbjarnarstöðum og kvöldkaffi á Iðavöllum.
Hefðin að lesa um jól. Þegar ég var barn dreymdi mig alltaf um að fá a.m.k. eina bók í jólagjöf sem hægt var að lesa fram undir morgun á jóladag og laumast jafnvel í desertinn frá kvöldinu áður eða kökubaukana í búrinu og maula með lestrinum. Mér finnst enn ómissandi að fá eina bók í jólagjöf, þó það gerist sjaldnar nú orðið að ég lesi fram undir morgun.
Hefðin sem ég flutti með mér heim eftir ársdvöl í Danmörku, þegar fjölskyldan safnast saman í hádeginu á aðfangadag til að borða möndlugraut með kirsuberjasósu, eins og Danirnir gera, en einnig með karamellusósu.
Hefðin í aðdraganda jóla sem við Bjössi tókum upp árið 2013, en hún felst í því að bjóða heim í „julefrokost“ þriðja sunnudag í aðventu. Ég vil helst að aðventan sé róleg og notaleg og snúist um að hitta fólk sem manni þykir vænt um, hvort sem það er yfir kaffibolla eða góðri máltíð, og þessi hefð var sett á í þeim anda.
Hefðin að spila um jól. Ég var alin upp við að á aðfangadag, jóladag og föstudaginn langa mátti ekki spila. En eftir því sem árin hafa liðið hafa spil einnig orðið hluti af þessum dögum. Mamma spilaði mikið við okkur systkinin og vini þegar við vorum börn og unglingar, bæði venjulegu 52 spilin og alls konar borðspil. Þessi hefð lifir enn góðu lífi þar sem við systkinin og okkar fjölskyldur komum saman og spilum, og ég er að reyna að koma dóttur minni og hennar vinum upp á að eiga svona spilastundir yfir hátíðarnar.

